Arfgengur nýrnasjúkdómur í persum og oriental köttum.
Hvað er PKD?
PKD eða polycystic kidney disease, er arfgengur nýrnasjúkdómur sem hefur fundist í persaköttum og fleiri austurlenskum kattategundum. Farið var að rannsaka hann árið 1990 þegar læða með sjúkdóminn kom á kennsluspítalann í Ohio State University í Bandaríkjunum. Undan henni voru ræktaðir kettir með því augnamiði að rannsaka sjúkdóminn nánar.
Hvernig er PKD greint?
Auðveldast er að greina sjúkdóminn með sónarskoðun á nýrum, þannig er hægt að greina sjúkdóminn á frumstigum áður en einkenna verður vart. Hárið er klippt á maga dýrsins og það tekur aðeins nokkrar mínútur að skoða hvort nýrun séu í lagi. Sjaldnast er þörf á að gefa kettinum róandi eða deyfandi lyf við skoðunina þar sem hún er algjörlega sársaukalaus. Þegar vön manneskja framkvæmir skoðunina með góðum tækjabúnaði eru líkurnar á að greina sjúkdóminn rétt 98% hjá dýrum sem eru eldri en 10 mánaða. Það er ekki mögulegt að gera nákvæma sjúkdómsgreiningu með blóðprufu.
Hvernig er sjúkdómsferlið?
Sjúkdómurinn þróast hægt og kemur oft ekki fram fyrr en um 7 ára aldur. Þá eru nýrun oft stór og nýrnabilunar farið að verða vart. Í upphafi eru til staðar í nýrunum litlar vökvafylltar blöðrur, sem stækka með aldrinum og valda á endanum skaða á virkni nýrans. Stærð blaðranna getur verið frá nokkrum millimetrum upp í fleiri sentimetra og fjöldi þeirra getur verið mismunandi. Þegar blöðrurnar vaxa minnkar nýrnavefurinn og á endanum fær kötturinn nýrnabilun.
Einkenni nýrnabilunar eru slappleiki, minni matarlyst, aukinn þorsti, aukin þvaglát og þyngdartap. Misjafnt er milli einstaklinga hversu fljótt einkenna verður vart og hversu hratt sjúkdómurinn þróast. Þannig geta einhverjir dáið af öðrum orsökum áður en einkennin koma í ljós, en þegar og ef blöðrurnar vaxa er öruggt að af hlýst nýrnabilun.
Hvernig getur ræktandi útrýmt sjúkdómnum úr sinni ræktun?
Sjúkdómurinn erfist ríkjandi á A-litningum. Þetta þýðir að einstaklingur þarf aðeins eitt gallað gen til að fram komi einkenni sjúkdómsins, en að sama skapi eru einstaklingar sem ekki hafa sjúkdóminn lausir við gallaða genið. Af þessu leiðir að fremur auðvelt er að útrýma sjúkdómnum úr ræktunarstofni og koma í veg fyrir útbreiðslu hans. Fyrsta skrefið er að láta rannsaka alla einstaklingla með tilliti til sjúkdómsins og gelda/taka úr sambandi þá sem hafa hann og rækta aðeins undan dýrum sem eru sjúkdómsfrí.
Talið er að PKD sé algengara en nú er vitað og með því að vera upplýst um sjúkdóminn geta ræktendur og dýralæknar unnið saman að því að útrýma honum.
Dýralæknir, Dagfinnur, dýralæknar, dýralækningar, dýralæknastofa, dýralækningastofa, dyralaeknir, dyralaeknar, dýraspítali, gæludýr, gæludýrafóur, gæludýravörur, hundasjampó, hundasjampo, gæludýrasjampó, kattafóður |