Ormahreinsun
Þarf kötturinn minn ormahreinsun?
Já, það ætti að ormhreinsa ketti helst tvisvar á ári. Spólormar eru algengir hjá köttum. Spólormar eru langir og þunnir. Kettir geta líka smitast af bandormum.
Innyflaormar eru svo algengir að alla ketti þarf að hreinsa með ákveðnu millibili og að alla kettlinga þarf skilyrðislaust að ormahreinsa jafnvel með styttra millibili en fullorðna ketti.
Einnig er vert að benda á að mikla veiðiketti þarf að ormahreinsa með skemmra millibili heldur en ketti sem eru friðarsinnar. Best er að hafa samráð við dýralækni um skipulagningu ormahreinsunar fyrir köttinn þinn.
Iðraormar: Kettlingar smitast strax með móðurmjólkinni. Smit er algengast hjá útiköttum sem veiða og éta bráð og þar sem margir kettir koma saman. Iðraormar eru hættulegastir kettlingum ungum köttum, því mótstaða þeirra er lítil. Fulloðnir kettir sýna yfirleitt lítill einkenni ormasmits, en eru stöðugir smitberar. Kötturinn getur haft orma þótt þú sjáir engin merki þess. Merki um smit er:
- Niðurgangur
- Uppköst
- Hósti
- Hiksti
- Mattur feldur
- Smáir kettlingar
- Vanþrif
- Þaninn kviður
Spóluormar,bitormar og bandormar hunda geta borist í ketti og frá köttum til hunda. Mýs, rottur,fuglar og skordýr geta verið hýslar lifra spóluorma og sumra bandormstegunda. Spóluormar geta smitast í fólk, aðallega til barna á aldrinum 0-5 ára. Spóluormar: Kattaspóluormurinn getur orðið allt að 10 cm langur. Smit berst með saur eða bráð. Lirfurnar bora sig í gegnum þarmveggina og berast með blóðrás til lifrarinnar. Þaðan berast þær til lungnanna. Í lungunum fara þær inn í berkjurnar og berast þaðan um barka upp í kok. Lifrunum er kyngt og úr maga berast þær til smágirnis, þar sem þær verða kynþroska ormar, sem verpa eggjum. Eggin berast út með saur. Smádýr sem mýs, fuglar og skordýr éta eggin.
Hjá fullorðnum köttum þróast aðeins fáar lirfur í kynþroska orma vegna mótefna kattarins gegn ormum. Þess í stað berast lirfur til ýmissa líffæra kattarins og leggjast þar í dvala. Eftir got flakka lifrur úr líkama móður yfir í júgur og berast þaðan með mjólkinni í kettlingana. Sé smitálag mikið á meðgöngu, fæðast smærri og þróttminni kettlingar. Tveimur til þremur vikum eftir fæðingu hafa kynþroska ormar þroskast í meltingarvegi kettlinganna og endursmit verður til móður, er hún sleikir þá. Egg spóluorma eru lífseig og lifa árum saman úti sem inni – þola frost,hita,sól og hreingerningar. Stundum ælir kötturinn spólormum eða þeir sjást í hægðum kattarins. Egg spólormsins sjást ekki vegna smæðar, en geta verið í hægðum. Spólormar geta valdið vandamálum eins og þembu, magakveisu og jafnvel hægðastoppi eða garnaflækju.
Bitormar hafa fundist í innfluttum köttum en ekki greinst í íslenskum.
Bandormar
Bandormar: Margar tegundir bandorma geta fundist í köttum, en eru ekki mjög algengir hér á landi. Bandormar eru langir og flatir og liðskiptir, sem líkjast hrísgrjónum í kattaskítnum eða í feldi kattarins. Bandormar smitast sjaldnast beint á milli katta oftast eru smitleiðir í gegnum millihýsla sem geta t.d verið nagdýr eða flær.
Meðferð gegn iðraormum byggist á því að fyrirbyggja smit og útrýma smiti. Tiltölulega auðvelt er að meðhöndla ormasmit í köttum. Mörg mismundi lyf eru á markaðnum, sum hver er jafnvel hægt að kaupa í apóteki án lyfseðils. Rétt er að benda á að ekki eru öll þessi efni jafnvirk og sum virka einungis gegn ákveðnum tegundum orma og öðrum ekki. Best er að láta dýralæknirinn ormahreinsa köttinn um leið og bólusetning fer fram og þess fyrir utan að hreinsa með spólormalyfi (Panacur eða Vermox) þess á milli.
Útiketti er best að ormhreinsa 2-4 sinnum á ári. Inniketti 1-2 sinnum árlega. Best er að ormahreinsa ketti áður en þeir fara á sýningar eða kattahótel. Læðum á að gefa ormalyf fyrir pörun, fyrir got og aftur um leið og kettlingunum, þegar þeir hafa náð 2-3ja vikna aldri og 5-6 vikna aldri. Gott er að gefa kettlingum aftur fyrir bólusetningu 12 vikna gömlum.
(úr bæklingi um Panacur birt með leyfi Thorarensen lyf ehf.)
Drög að heilbrigðisreglugerð: Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum spóluorma í köttum. Kattareiganda eða umráðamanni kattar er skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega og ber hann allan kostnað af hreinsun kattarins, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags. Skylt er að hreinsa alla ketti 4 mánaða og eldri. Kattareigandi skal framvísa vottorði frá dýralækni um ormahreinsun kattarins ár hvert til viðkomandi sveitarfélags. Láti eigandi ekki hreinsa kött sinn skal heilbrigðisnefnd grípa til viðeigandi ráðstafana. Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga. Setji sveitarfélag sér samþykkt um kattahald skal í henni kveða á um hreinsun katta og merkingu.
kattafóður, ormahreinsun katta, ormahreinsun, spólormar, bandormar,kettir, köttur, kött, kisa, kisur, kettlingar, kettling, dýralæknir, dýralækningar,dýralæknar, dýraspítali, bólusetning, ormar, kattafóður, kattamatur.
Þvagstífla
Þvagstífla er þegar kötturinn á erfitt með að pissa . Þvagteppa getur stafað af þvagsteinum, stíflu í þvagrás eða blöðrubólgu. Um 3 af hverjum 100 köttum fá þvagstíflu einhverntímann um ævina. Geltir fressir eru í meiri hættu með þvagstíflu. Þvagstífla er einnig algengari hjá yngri köttum, milli tveggja og sex ára. Þegar kötturinn þinn fær þvagstíflu fer hann oft í sandkassann eða út að pissa án þess að mikið þvag komi frá honum.
Það litla sem kemur frá honum er oft dökkt eða blóðlitað. Kötturinn virðist vera að rembast eins og væri með hægðarteppu og jafnvel hljóða af sársauka eða sleikja sig að aftan. Kötturinn getur líka byrjað að pissa utan kassans. Ef þvagrásin er alveg lokuð getur þrýstingur í blöðrunni sprengt blöðruna. Mikilvægt er að fara með köttinn til dýralæknis fljótt.
Tannhreinsun
Hafi kettir slæmar tennur verða þeir andfúlir. Þar sem tannsteinn safnast á tennur katta með tímanum er algengt að gamlir kettir hafi slæmar tennur. Tannsteinn orsakar bólgu í tannholdi (gingivitis) og gómar dragast saman og minnka. Þetta veldur oft sýkingu í tannrótinni (periodontitis) og þar kemur að tennurnar losna og detta úr að lokum. Þar sem þetta er sársaukafullt fyrir köttinn er best að láta fjarlægja tannsteininn áður en tannholdið er orðið mjög bólgið. Vitaskuld tekur tannsteinn aftur að safnast á tennurnar eftir að þær hafa verið hreinsaðar og því er gott að gefa kettinum mat sem reynir svolítið á tennurnar og hægir á tannsteinsmyndun.
Þurrfóður hentar vel í þessu skyni. Til er sjúkrafóður frá Hills Prescription diet t/d sem er gott að gefa fyrir tennur annað slagið.Einnig gæti kettinum þótt gott að naga eitthvað hart, svo sem bita af steikarpöru eða þess háttar.
PKD hjá persum
Arfgengur nýrnasjúkdómur í persum og oriental köttum.
Hvað er PKD?
PKD eða polycystic kidney disease, er arfgengur nýrnasjúkdómur sem hefur fundist í persaköttum og fleiri austurlenskum kattategundum. Farið var að rannsaka hann árið 1990 þegar læða með sjúkdóminn kom á kennsluspítalann í Ohio State University í Bandaríkjunum. Undan henni voru ræktaðir kettir með því augnamiði að rannsaka sjúkdóminn nánar.
Hvernig er PKD greint?
Auðveldast er að greina sjúkdóminn með sónarskoðun á nýrum, þannig er hægt að greina sjúkdóminn á frumstigum áður en einkenna verður vart. Hárið er klippt á maga dýrsins og það tekur aðeins nokkrar mínútur að skoða hvort nýrun séu í lagi. Sjaldnast er þörf á að gefa kettinum róandi eða deyfandi lyf við skoðunina þar sem hún er algjörlega sársaukalaus. Þegar vön manneskja framkvæmir skoðunina með góðum tækjabúnaði eru líkurnar á að greina sjúkdóminn rétt 98% hjá dýrum sem eru eldri en 10 mánaða. Það er ekki mögulegt að gera nákvæma sjúkdómsgreiningu með blóðprufu.
Hvernig er sjúkdómsferlið?
Sjúkdómurinn þróast hægt og kemur oft ekki fram fyrr en um 7 ára aldur. Þá eru nýrun oft stór og nýrnabilunar farið að verða vart. Í upphafi eru til staðar í nýrunum litlar vökvafylltar blöðrur, sem stækka með aldrinum og valda á endanum skaða á virkni nýrans. Stærð blaðranna getur verið frá nokkrum millimetrum upp í fleiri sentimetra og fjöldi þeirra getur verið mismunandi. Þegar blöðrurnar vaxa minnkar nýrnavefurinn og á endanum fær kötturinn nýrnabilun.
Einkenni nýrnabilunar eru slappleiki, minni matarlyst, aukinn þorsti, aukin þvaglát og þyngdartap. Misjafnt er milli einstaklinga hversu fljótt einkenna verður vart og hversu hratt sjúkdómurinn þróast. Þannig geta einhverjir dáið af öðrum orsökum áður en einkennin koma í ljós, en þegar og ef blöðrurnar vaxa er öruggt að af hlýst nýrnabilun.
Hvernig getur ræktandi útrýmt sjúkdómnum úr sinni ræktun?
Sjúkdómurinn erfist ríkjandi á A-litningum. Þetta þýðir að einstaklingur þarf aðeins eitt gallað gen til að fram komi einkenni sjúkdómsins, en að sama skapi eru einstaklingar sem ekki hafa sjúkdóminn lausir við gallaða genið. Af þessu leiðir að fremur auðvelt er að útrýma sjúkdómnum úr ræktunarstofni og koma í veg fyrir útbreiðslu hans. Fyrsta skrefið er að láta rannsaka alla einstaklingla með tilliti til sjúkdómsins og gelda/taka úr sambandi þá sem hafa hann og rækta aðeins undan dýrum sem eru sjúkdómsfrí.
Talið er að PKD sé algengara en nú er vitað og með því að vera upplýst um sjúkdóminn geta ræktendur og dýralæknar unnið saman að því að útrýma honum.
Ófrjósemisaðgerð
Með nútíma deyfingaraðferðum og tækni við skurðaðgerðir eru ófrjósemisaðgerðir yfirleitt öruggar og án vandkvæða. Skurðurinn er yfirleitt tekinn á síðu læðunnar eða á miðjum kvið, en er yfirleitt mjög lítill og grær á skömmum tíma. Nokkrum dögum eftir aðgerðina eru flestir kettir farnir að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist, og eftir um það bil vikutíma má taka saumana og þá er feldurinn yfirleitt farinn að vaxa.
Ætti að leyfa læðum að eignast kettlinga einu sinni áður en þær eru gerðar ófrjóar?
Vilji maður láta læðuna sína eignast kettlinga til að hafa upplifað það eða vegna þess að maður vill eignast kettling undan henni, er ekkert við því að segja. Á hinn bóginn skiptir það engu fyrir læðuna hvort hún eignast kettlinga einu sinni eða er gerð ófrjó áður en hún verður breima í fyrsta sinn, svo að það er engin ástæða til þess hennar vegna.
Mun læða sem búið er að gera ófrjóa verða breima áfram?
Yfirleitt ekki. Við ófrjósemisaðgerð eru eggjastokkarnir eru fjarlægðir ásamt leginu og þetta kemur yfirleitt í veg fyrir að þær verði breima. Þó koma fram slík einkenni hjá stöku læðum á ákveðnum árstímum þótt þau séu yfirleitt mjög veik. Þetta orsakast líklega af því að aðrir líkamshlutar framleiði kvenhormón í litlum mæli.
Hvernig á að sinna læðum eftir ófrjósemisaðgerð?
Það má taka læðuna heim sama dag og aðgerðin er framkvæmd ef allt hefur gengið að óskum. Best er að fylgja vel þeim leiðbeiningum sem dýralæknirinn gefur þegar læðan er útskrifuð og engin ástæða er til að hika við að hringja í dýralækninn og leita upplýsinga ef eitthvað veldur manni áhyggjum. Flestir kettir sofa mikið fyrsta sólarhringinn eftir aðgerðina, en aðrir virðast ná sér ótrúlega fljótt. Sumir kettir gætu verið með slen í nokkra daga. Best er að skoða skurðinn einu sinni eða tvisvar á dag og hafa skal samband við dýralækninn ef sýking kemur í sárið, það bólgnar eða fer að vella úr því. Flestir kettir sleikja saumana eftir aðgerð, en sjaldgæft er að þeim takist að taka þá úr.
Gelding
Hvers vegna á að gelda högna?
Högnar fá með aldrinum einkenni sem gerir mönnum erfitt fyrir að halda þá sem gæludýr. Eitt af þessu er mun sterkari hneigð meðal högna en læða til að merkja sér svæði með því að míga umhverfis þau (hland högna gefur frá sér afar sterkan þef) og tilhneigingu til að tileinka sér stór svæði og verja þau af hörku gagnvart öðrum köttum.
Þetta þýðir að högnar þvælast mikið að heiman frá sér, oft í nokkra daga í einu, og lenda reglulega í útistöðum og slagsmálum við aðra ketti. Þetta þýðir ekki aðeins að högnar séu líklegir til að fá sár sem þeir fá í slagsmálum, heldur baka þeir líka eigendum sínum óvinsældir nágrannanna með því að ráðast á ketti þeirra.
Allir kettir, hvors kyns sem þeir eru og hvort sem þeir eru ófrjóir eða ekki, eru líklegir til að verja umráðasvæði sín, en þetta vandamál er langmest þar sem um ógelta högna er að ræða.
Breimandi kettir í þéttbýli halda oft vöku fyrir fólki og gerir katti óvinsæla hjá mörgum.
Heimiliskötturinn er bestur vanaður. Geltur köttur er líklegri til að vera heilbrigðari en ógeltur köttur.
Hvað á köttur að vera gamall þegar hann er geltur?
Hægt er að gelda ketti á hvaða aldri sem er, en yfirleitt er mælt með því að það sé gert um fimm eða sex mánaða aldur. Þá hefur kötturinn náð ákveðnum þroska en er varla orðinn nógu gamall til að sýna högnastæla.
Breytast eðliseiginleikar kattarins við geldingu?
Geltur köttur mun að sjálfsögðu ekki fá útlit og eiginleika frjós högna, en gelding ætti ekki að breyta skapgerð hans og eðliseiginleikum. Þar sem geltir högnar eru ekki eins uppteknir af því að verja svæði sín og ógeltir, hafa þeir tilhneigingu til að verða makráðir og fitna oft. Flestir högnar sem haldnir eru sem gæludýr eru reyndar geltir, og veita eigendum sínum yfirleitt mikla ánægju og félagsskap.
Getur verið hættulegt að gelda ketti?
Þar sem hvort heldur ófrjósemisaðgerð á læðum eða gelding högna krefst svæfingar getur nokkur áhætta fylgt slíkum aðgerðum. Upp geta komið vandamál sem eiga rætur að rekja til svæfingarinnar, svo sem innvortis blæðingar í kjölfar aðgerðarinnar eða sýkingar. Þó að hver sá sem lætur gæludýr sitt gangast undir aðgerð verði að vera undir það búinn að einhver áhætta geti verið því samfara, skal lögð á það áhersla að aðgerðir á ungum og heilbrigðum köttum takast í langflestum tilfellum mjög vel og vandamál í kjölfar þeirra eru afar sjaldgæf. Það má staðhæfa að meiri áhætta geti fylgt því fyrir læðu að ganga með og eignast kettlinga en áhættan sem fylgir ófrjósemisaðgerð.
Kisa er farin að pissa utan kassans?
Ef kötturinn er geltur, eru það oft mótmæli vegna einhverra breytinga í umhverfinu eða á heimilinu, sem orsakar breytingu á hegðun, oft til að fá athygli. Hægt er að fá lyktarhormón hjá dýralækni sem kallast Feliway, sem hefur róandi áhrif á köttinn og lagar oft þetta vandamál.
Stundum getur þó verið um einhvern sjúkdóm að ræða. Ræðið við dýralækninn, það er oft hægt að meðhöndla köttinn.
Offita
Oft taka eigendur ekki eftir því að kötturinn fitnar fyrr en kötturinn er orðinn akfeitur eða dýrlæknirinn bendir eigendanum á það, er kötturinn kemur í dýralæknaskoðun. Þegar þú strýkur kettinum þínum áttu að finna fyrir ribbeinunum án þess að þurfa að pressa mjög á þau. Ef þú sérð ribbeinin þá er kötturinn of grannur. Margir kettir með offitu éta kannski ekki mjög mikið, en þeir hreyfa sig líka mjög lítið.
Ýmis vandamál geta fylgt offitu hjá köttum. Þeir eiga oft erfitt með að þrífa sig almennilega og fá þá frekar húðvandamál. Feitir kettir fá frekar þvagsteina, sem valda þvagstíflu. All offeit dýr eru í lélegri líkamlegri þjálfun og extra þyngd eykur álag á hjarta og liðamót.
Besta leiðin til að forðast vandamálið er fóðrunin. Ekki gefa kettinum þínum of mikinn mat. Veldu gott fóður, sem hentar fyrir þinn kött og skammtaðu kettinum daglega. Vigtaðu köttinn annað slagið til að fylgjast með þyngdinni. Dýralæknastofurnar hafa yfirleitt góða vigt til að vigta köttinn. Ef kötturinn þarf að léttast, minkaðu fóðurskammtinn um tvo þriðju. Hægt er að fá fóður, „Slim“ til að minnka kaloríurnar í fóðrinu. Ekki megra köttinn of ört, það getur valdið lifrasjúkdómi. Megrunin ætti að vera stöðuð yfir 3-4 mánuði. Fáðu ráð hjá dýralækninum þínum, hvernig best er að megra köttinn þinn.