Kettir

Bólusetningar katta

Bólusetningar flokkast undir hvetjandi ónæmisaðgerðir en þær eru gerðar í því skyni að veita vörn gegn ákveðnum smitsjúkdómum. Við bólusetningar eru notuð bóluefni en þau skiptast í tvo flokka, lifandi eða dauð.  Í lifandi bóluefni eru vírusar sem hafa verið veiklaðir en í dauðu bóluefni eru dauðir vírusar eða brot af þeim.  Notkun bóluefna er áhættulítil og bóluefni sem notað er fyrir ketti hér á landi inniheldur eingöngu óvirkjaðar veirur.

Við bólusetningu katta er gefið bóluefni undir húð en það hvetur ónæmiskerfið til framleiðslu sértækra mótefna sem verja köttinn gegn viðkomandi sjúkdómi. Á Íslandi er bólusett fyrir eftirtöldum sjúkdómum:

 • Kattafár (Feline panleukopenie) – vírussjúkdómur sem var fyrir tíma bólusetninganna, ein helsta dánarorsök katta um allan heim.  Sjúkdómurinn er einkum hættulegur kettlingum og ungum dýrum en kettir á öllum aldri geta smitast.  Sjúkdómurinn veldur háum hita, slappleika, uppköstum, niðurgangi og lystarleysi og getur leitt dýrið til dauða á 3-5 dögum eftir að einkenna verður vart.  Hjá mörgum köttum verða veikindin langvarandi og valda því að kötturinn þrífst illa.  Kattafár smitast bæði beint milli katta eða berst milli katta gegnum umhverfið, en þar getur vírusinn lifað lengi.
 • Kattainflúensa (feline rhinotracheitis, feline calcivirus) – Kattainflúensa er samheiti yfir tvo mismunandi vírussjúkdóma, Kattaflensu (FVR) og Kattakvef (FCV), en þessir vírusar eru algengasta orsök öndunarfærasýkinga hjá köttum.  Sjúkdómurinn veldur oftast litlum einkennum, en getur verið mjög alvarlegur og jafnvel banvænn hjá kettlingum.  Einkennin eru hár hiti, slappleiki, hnerri og augnrennsli, bólgur kringum augun og jafnvel slef.  Stundum sjást sár í munni.  Smitaðir kettir geta borið vírusinn með sér þó án þess að sýna einkenni og gerir það baráttuna við sjúkdóminn erfiðari.
 • Chlamydia – Chlamydia er mjög smitandi sjúkdómur hjá köttum og orsakavaldurinn er baktería sem nefnist Chlamydia psittaci.  Einkennin eru hvarmabólga, byrjast oftast í öðru auganu og færir sig síðan yfir í hitt augað, hiti, nefrennsli, lystarleysi og þyngdartap.  Sjúkdómurinn er meðhöndlaður með fúkkalyfjum.  Þar sem Chlamydiu smit er sem betur fer ekki mjög algengt á Íslandi, er bóluefni gegn Chlamydiu nær eingöngu notað hjá kattaræktendum og þar sem smitálag er mjög mikið.

Hvenær á að bólusetja ketti ?

Við fæðingu eru kettlingar verndaðir gegn mörgum smitsjúkdómum með mótefnum, sem þeir fá í gegnum broddmjólk móðurinnar fyrstu klukkutímana eftir fæðingu. Þeir eru þó einungis verndaðir gegn þeim sjúkdómum sem móðirin sjálf er ónæm fyrir, því er mikilvægt að móðirin sé bólusett reglulega.  Kettlinga undir 8 vikna aldri hefur því litla þýðingu að bólusetja, mótefnin gera bóluefnið óvirkt.  Mótefnin frá móðurinni lækka smám saman í blóði kettlingsins, uns eigin mótefnamyndun kettlingsins tekur alfarið yfir.

Hvenær það gerist er breytilegt eftir einstaklingum og aðstæðum, en við 8-12 vikna aldur hafa mótefnin lækkað það mikið að kominn er tími fyrir fyrstu bólusetningu. Til að örva mótefnamyndun kettlingsins eins mikið og hægt er, skal endurtaka bólusetninguna 3 – 4 vikum síðar.  Þá telst kötturinn grunnbólusettur.  Fram að þeim tíma er kötturinn raunverulega ekki verndaður gegn ofantöldum sjúkdómum og ætti að forða honum frá samneyti við utanaðkomandi ketti. Kettlingafullar kisur á ekki að bólusetja og ekki er heldur mælt með að bólusetja kisu meðan kettlingarnir eru á spena.

Bólusetningaráætlun

Til að vernda kettlinginn eins og hægt er gegn ofantöldum smitsjúkdómum, má fylgja eftirfarandi áætlun:

 1. Fyrsta bólusetning við 8-12 vikna aldur.
 2. Önnur bólusetning við 12-16 vikna aldur.
 3. Árleg endurbólusetning.

Ef kettlingurinn er bólusettur fyrir 8 vikna aldur, skyldi endurtaka bólusetningarnar við 12 og 16 vikna aldur.  Fullorðna ketti, sem áður hafa verið bólusettir, skal alla jafna bólusetja árlega.

Hversu lengi endist bólusetning?

Mótefnaframleiðsla er mjög mismunandi hjá einstaklingum. Dæmi um þetta þekkja kattaeigendur sem hafa flutt gæludýrin sín með til Svíþjóðar, Noregs eða Stóra-Bretlands.  Þá þarf að mæla mótefni gegn hundaæði í blóði áður en flytja má köttinn.  Sumir kettir hafa, þrátt fyrir að öllum bólusetningarreglum sé framfylgt, ekki náð að mynda nægilegt magn mótefnis í blóði til að fá innflutningsleyfi.

Að auki er mótefnamyndun mismunandi eftir því um hvaða sjúkdóm er að ræða, t.d. endist bólusetning gegn Kattakvefi, Kattaflensu og Chlamydiu einungis í eitt ár.  Mikilvægt er að hafa í huga að þótt að kötturinn sé bólusettur t.d. gegn Chlamydiu, getur hann alltaf smitast.  Það getur gerst t.d. ef smitálagið er mjög mikið eða ef kötturinn er ónæmisveiklaður vegna annars sjúkdóms, ormasmits eða stresss.  Veikindatíminn er þó styttri og einkennin vægari hjá bólusettum einstaklingum.

Er einhver áhætta við bólusetningar?

Almennt séð er mjög lítil áhætta við bólusetningu katta.  Margir kettir eru bólusettir á ári hverju og mjög fáir fá alvarlegar aukaverkanir.  Mikilvægt er að greina á milli alvarlegra aukaverkana og vægra aukaverkana.

Vægar aukaverkanir eru þreyta, kannski lystarleysi sama dag og bólusett er.  Stundum fá kettirnir smá hita, sem gengur yfir á 2 dögum.  Einnig geta sést smá viðbrögð í kringum stungustaðinn, kláði og smá bólga en það hverfur oftast á ca hálfum mánuði.  Alvarlegar aukaverkanir eru þegar kötturinn sýnir viðbrögð strax eftir bólusetningu, oftast líða innan 10 mínútur frá bólusetningu og þar til í ljós koma ofnæmisviðbrögð.  Þá er mikilvægt að koma strax aftur til dýralæknisins svo hægt sé að meðhöndla ofnæmisviðbrögðin.

Hafið samband við dýralækninn ef:

 • kettlingur sem á að fara í sína fyrstu bólusetningu er nýkominn á heimilið.  Dýralæknirinn framkvæmir einnig heilsufarsskoðun og ormahreinsun um leið og bólusett er.
 • kötturinn þarf að fara í árlega heilsufarsskoðun og fá árlega bólusetningu í leiðinni.
 • þú hefur áhyggjur af því hvort þurfi að bólusetja köttinn gegn Chlamydiu
 • þú ert á leiðinni til Svíþjóðar, Noregs eða Stóra-Bretlands, því köttinn þarf að bólusetja gegn hundaæði ca 6-7 mánuðum áður en haldið er af stað.
 • þú ert á leiðinni td. til Þýskalands, Hollands, Belgíu, Frakklands, Spánar eða Ítalíu, því að köttinn þarf að bólusetja við hundaæði minnst 30 dögum áður en haldið er af stað.

Hálsól og merki

Á að eyrnamerkja ketti ? Eyrnamerking er varanlegt kennimark sem auðvelt er að framkvæma meðan kötturinn er í svæfingu t.d fyrir geldingu. Á köttum eru kenninúmer yfirleitt merkt í eyra. Kettir geta týnt lausum merkjum á hálsól, en eyrnamerking fylgir þeim ávallt.

Það er auðvelt fyrir nágranna eða aðra að sjá að kötturinn er merktur og geta þá hringt og fengið upplýsingar um eiganda til að koma kisu aftur heim. Kattholt hefur lista yfir eyrnamerkingar og dýralæknastofur um sínar merkingar.

Einnig er hægt að örmerkja ketti. Örmerki er örlítill kubbur, sem er settur undir húð og virkar líkt og strikamerking.

Í kattasamþykkt höfuðborgarinnar er ákvæði um að allir kettir skulu merktir með örmerki. Örmerking er gerð af dýralæknum. Best er að láta örmerkja um leið og gelding eða ófrjósemisaðgerð er gerð.

Ormahreinsun

Þarf kötturinn minn ormahreinsun?

Já, það ætti að ormhreinsa ketti helst tvisvar á ári. Spólormar eru algengir hjá köttum. Spólormar eru langir og þunnir. Kettir geta líka smitast af bandormum.
Innyflaormar eru svo algengir að alla ketti þarf að hreinsa með ákveðnu millibili og að alla kettlinga þarf skilyrðislaust að ormahreinsa jafnvel með styttra millibili en fullorðna ketti.
Einnig er vert að benda á að mikla veiðiketti þarf að ormahreinsa með skemmra millibili heldur en ketti sem eru friðarsinnar. Best er að hafa samráð við dýralækni um skipulagningu ormahreinsunar fyrir köttinn þinn.

Iðraormar: Kettlingar smitast strax með móðurmjólkinni. Smit er algengast hjá útiköttum sem veiða og éta bráð og þar sem margir kettir koma saman. Iðraormar eru hættulegastir kettlingum ungum köttum, því mótstaða þeirra er lítil. Fulloðnir kettir sýna yfirleitt lítill einkenni ormasmits, en eru stöðugir smitberar. Kötturinn getur haft orma þótt þú sjáir engin merki þess. Merki um smit er:

 • Niðurgangur
 • Uppköst
 • Hósti
 • Hiksti
 • Mattur feldur
 • Smáir kettlingar
 • Vanþrif
 • Þaninn kviður

Spóluormar,bitormar og bandormar hunda geta borist í ketti og frá köttum til hunda. Mýs, rottur,fuglar og skordýr geta verið hýslar lifra spóluorma og sumra bandormstegunda. Spóluormar geta smitast í fólk, aðallega til barna á aldrinum 0-5 ára. Spóluormar: Kattaspóluormurinn getur orðið allt að 10 cm langur. Smit berst með saur eða bráð. Lirfurnar bora sig í gegnum þarmveggina og berast með blóðrás til lifrarinnar. Þaðan berast þær til lungnanna. Í lungunum fara þær inn í berkjurnar og berast þaðan um barka upp í kok. Lifrunum er kyngt og úr maga berast þær til smágirnis, þar sem þær verða kynþroska ormar, sem verpa eggjum. Eggin berast út með saur. Smádýr sem mýs, fuglar og skordýr éta eggin.

Hjá fullorðnum köttum þróast aðeins fáar lirfur í kynþroska orma vegna mótefna kattarins gegn ormum. Þess í stað berast lirfur til ýmissa líffæra kattarins og leggjast þar í dvala. Eftir got flakka lifrur úr líkama móður yfir í júgur og berast þaðan með mjólkinni í kettlingana. Sé smitálag mikið á meðgöngu, fæðast smærri og þróttminni kettlingar. Tveimur til þremur vikum eftir fæðingu hafa kynþroska ormar þroskast í meltingarvegi kettlinganna og endursmit verður til móður, er hún sleikir þá. Egg spóluorma eru lífseig og lifa árum saman úti sem inni – þola frost,hita,sól og hreingerningar. Stundum ælir kötturinn spólormum eða þeir sjást í hægðum kattarins. Egg spólormsins sjást ekki vegna smæðar, en geta verið í hægðum. Spólormar geta valdið vandamálum eins og þembu, magakveisu og jafnvel hægðastoppi eða garnaflækju.

Bitormar hafa fundist í innfluttum köttum en ekki greinst í íslenskum.


Bandormar

Bandormar: Margar tegundir bandorma geta fundist í köttum, en eru ekki mjög algengir hér á landi. Bandormar eru langir og flatir og liðskiptir, sem líkjast hrísgrjónum í kattaskítnum eða í feldi kattarins. Bandormar smitast sjaldnast beint á milli katta oftast eru smitleiðir í gegnum millihýsla sem geta t.d verið nagdýr eða flær.

Meðferð gegn iðraormum byggist á því að fyrirbyggja smit og útrýma smiti. Tiltölulega auðvelt er að meðhöndla ormasmit í köttum. Mörg mismundi lyf eru á markaðnum, sum hver er jafnvel hægt að kaupa í apóteki án lyfseðils. Rétt er að benda á að ekki eru öll þessi efni jafnvirk og sum virka einungis gegn ákveðnum tegundum orma og öðrum ekki. Best er að láta dýralæknirinn ormahreinsa köttinn um leið og bólusetning fer fram og þess fyrir utan að hreinsa með spólormalyfi (Panacur eða Vermox) þess á milli.

Útiketti er best að ormhreinsa 2-4 sinnum á ári. Inniketti 1-2 sinnum árlega. Best er að ormahreinsa ketti áður en þeir fara á sýningar eða kattahótel. Læðum á að gefa ormalyf fyrir pörun, fyrir got og aftur um leið og kettlingunum, þegar þeir hafa náð 2-3ja vikna aldri og 5-6 vikna aldri. Gott er að gefa kettlingum aftur fyrir bólusetningu 12 vikna gömlum.
(úr bæklingi um Panacur birt með leyfi Thorarensen lyf ehf.)

Drög að heilbrigðisreglugerð: Fyrirbyggja skal sýkingar hjá mönnum af völdum spóluorma í köttum. Kattareiganda eða umráðamanni kattar er skylt að láta ormahreinsa kött sinn árlega og ber hann allan kostnað af hreinsun kattarins, nema að annað komi fram í samþykkt hlutaðeigandi sveitarfélags. Skylt er að hreinsa alla ketti 4 mánaða og eldri. Kattareigandi skal framvísa vottorði frá dýralækni um ormahreinsun kattarins ár hvert til viðkomandi sveitarfélags. Láti eigandi ekki hreinsa kött sinn skal heilbrigðisnefnd grípa til viðeigandi ráðstafana. Að öðru leyti gilda ákvæði samþykkta einstakra sveitarfélaga. Setji sveitarfélag sér samþykkt um kattahald skal í henni kveða á um hreinsun katta og merkingu.

kattafóður, ormahreinsun katta, ormahreinsun, spólormar, bandormar,kettir, köttur, kött, kisa, kisur, kettlingar, kettling, dýralæknir, dýralækningar,dýralæknar, dýraspítali, bólusetning, ormar, kattafóður, kattamatur.


Þvagstífla

Þvagstífla er þegar kötturinn á erfitt með að pissa . Þvagteppa getur stafað af þvagsteinum, stíflu í þvagrás eða blöðrubólgu. Um 3 af hverjum 100 köttum fá þvagstíflu einhverntímann um ævina. Geltir fressir eru í meiri hættu með þvagstíflu. Þvagstífla er einnig algengari hjá yngri köttum, milli tveggja og sex ára. Þegar kötturinn þinn fær þvagstíflu fer hann oft í sandkassann eða út að pissa án þess að mikið þvag komi frá honum.

Það litla sem kemur frá honum er oft dökkt eða blóðlitað. Kötturinn virðist vera að rembast eins og væri með hægðarteppu og jafnvel hljóða af sársauka eða sleikja sig að aftan. Kötturinn getur líka byrjað að pissa utan kassans. Ef þvagrásin er alveg lokuð getur þrýstingur í blöðrunni sprengt blöðruna. Mikilvægt er að fara með köttinn til dýralæknis fljótt.


Tannhreinsun

Hafi kettir slæmar tennur verða þeir andfúlir. Þar sem tannsteinn safnast á tennur katta með tímanum er algengt að gamlir kettir hafi slæmar tennur. Tannsteinn orsakar bólgu í tannholdi (gingivitis) og gómar dragast saman og minnka. Þetta veldur oft sýkingu í tannrótinni (periodontitis) og þar kemur að tennurnar losna og detta úr að lokum. Þar sem þetta er sársaukafullt fyrir köttinn er best að láta fjarlægja tannsteininn áður en tannholdið er orðið mjög bólgið. Vitaskuld tekur tannsteinn aftur að safnast á tennurnar eftir að þær hafa verið hreinsaðar og því er gott að gefa kettinum mat sem reynir svolítið á tennurnar og hægir á tannsteinsmyndun.

Þurrfóður hentar vel í þessu skyni. Til er sjúkrafóður frá Hills Prescription diet t/d sem er gott að gefa fyrir tennur annað slagið.Einnig gæti kettinum þótt gott að naga eitthvað hart, svo sem bita af steikarpöru eða þess háttar.


PKD hjá persum

Arfgengur nýrnasjúkdómur í persum og oriental köttum.
Hvað er PKD?

PKD eða polycystic kidney disease, er arfgengur nýrnasjúkdómur sem hefur fundist í persaköttum og fleiri austurlenskum kattategundum. Farið var að rannsaka hann árið 1990 þegar læða með sjúkdóminn kom á kennsluspítalann í Ohio State University í Bandaríkjunum. Undan henni voru ræktaðir kettir með því augnamiði að rannsaka sjúkdóminn nánar.

Hvernig er PKD greint?

Auðveldast er að greina sjúkdóminn með sónarskoðun á nýrum, þannig er hægt að greina sjúkdóminn á frumstigum áður en einkenna verður vart. Hárið er klippt á maga dýrsins og það tekur aðeins nokkrar mínútur að skoða hvort nýrun séu í lagi. Sjaldnast er þörf á að gefa kettinum róandi eða deyfandi lyf við skoðunina þar sem hún er algjörlega sársaukalaus. Þegar vön manneskja framkvæmir skoðunina með góðum tækjabúnaði eru líkurnar á að greina sjúkdóminn rétt 98% hjá dýrum sem eru eldri en 10 mánaða. Það er ekki mögulegt að gera nákvæma sjúkdómsgreiningu með blóðprufu.

Hvernig er sjúkdómsferlið?

Sjúkdómurinn þróast hægt og kemur oft ekki fram fyrr en um 7 ára aldur. Þá eru nýrun oft stór og nýrnabilunar farið að verða vart. Í upphafi eru til staðar í nýrunum litlar vökvafylltar blöðrur, sem stækka með aldrinum og valda á endanum skaða á virkni nýrans. Stærð blaðranna getur verið frá nokkrum millimetrum upp í fleiri sentimetra og fjöldi þeirra getur verið mismunandi. Þegar blöðrurnar vaxa minnkar nýrnavefurinn og á endanum fær kötturinn nýrnabilun.

Einkenni nýrnabilunar eru slappleiki, minni matarlyst, aukinn þorsti, aukin þvaglát og þyngdartap. Misjafnt er milli einstaklinga hversu fljótt einkenna verður vart og hversu hratt sjúkdómurinn þróast. Þannig geta einhverjir dáið af öðrum orsökum áður en einkennin koma í ljós, en þegar og ef blöðrurnar vaxa er öruggt að af hlýst nýrnabilun.

Hvernig getur ræktandi útrýmt sjúkdómnum úr sinni ræktun?
Sjúkdómurinn erfist ríkjandi á A-litningum. Þetta þýðir að einstaklingur þarf aðeins eitt gallað gen til að fram komi einkenni sjúkdómsins, en að sama skapi eru einstaklingar sem ekki hafa sjúkdóminn lausir við gallaða genið. Af þessu leiðir að fremur auðvelt er að útrýma sjúkdómnum úr ræktunarstofni og koma í veg fyrir útbreiðslu hans. Fyrsta skrefið er að láta rannsaka alla einstaklingla með tilliti til sjúkdómsins og gelda/taka úr sambandi þá sem hafa hann og rækta aðeins undan dýrum sem eru sjúkdómsfrí.

Talið er að PKD sé algengara en nú er vitað og með því að vera upplýst um sjúkdóminn geta ræktendur og dýralæknar unnið saman að því að útrýma honum.


Ófrjósemisaðgerð

Með nútíma deyfingaraðferðum og tækni við skurðaðgerðir eru ófrjósemisaðgerðir yfirleitt öruggar og án vandkvæða. Skurðurinn er yfirleitt tekinn á síðu læðunnar eða á miðjum kvið, en er yfirleitt mjög lítill og grær á skömmum tíma. Nokkrum dögum eftir aðgerðina eru flestir kettir farnir að hegða sér eins og ekkert hafi í skorist, og eftir um það bil vikutíma má taka saumana og þá er feldurinn yfirleitt farinn að vaxa.

Ætti að leyfa læðum að eignast kettlinga einu sinni áður en þær eru gerðar ófrjóar?
Vilji maður láta læðuna sína eignast kettlinga til að hafa upplifað það eða vegna þess að maður vill eignast kettling undan henni, er ekkert við því að segja. Á hinn bóginn skiptir það engu fyrir læðuna hvort hún eignast kettlinga einu sinni eða er gerð ófrjó áður en hún verður breima í fyrsta sinn, svo að það er engin ástæða til þess hennar vegna.

Mun læða sem búið er að gera ófrjóa verða breima áfram?
Yfirleitt ekki. Við ófrjósemisaðgerð eru eggjastokkarnir eru fjarlægðir ásamt leginu og þetta kemur yfirleitt í veg fyrir að þær verði breima. Þó koma fram slík einkenni hjá stöku læðum á ákveðnum árstímum þótt þau séu yfirleitt mjög veik. Þetta orsakast líklega af því að aðrir líkamshlutar framleiði kvenhormón í litlum mæli.

Hvernig á að sinna læðum eftir ófrjósemisaðgerð?
Það má taka læðuna heim sama dag og aðgerðin er framkvæmd ef allt hefur gengið að óskum. Best er að fylgja vel þeim leiðbeiningum sem dýralæknirinn gefur þegar læðan er útskrifuð og engin ástæða er til að hika við að hringja í dýralækninn og leita upplýsinga ef eitthvað veldur manni áhyggjum. Flestir kettir sofa mikið fyrsta sólarhringinn eftir aðgerðina, en aðrir virðast ná sér ótrúlega fljótt. Sumir kettir gætu verið með slen í nokkra daga. Best er að skoða skurðinn einu sinni eða tvisvar á dag og hafa skal samband við dýralækninn ef sýking kemur í sárið, það bólgnar eða fer að vella úr því. Flestir kettir sleikja saumana eftir aðgerð, en sjaldgæft er að þeim takist að taka þá úr.


Gelding

Hvers vegna á að gelda högna?

Högnar fá með aldrinum einkenni sem gerir mönnum erfitt fyrir að halda þá sem gæludýr. Eitt af þessu er mun sterkari hneigð meðal högna en læða til að merkja sér svæði með því að míga umhverfis þau (hland högna gefur frá sér afar sterkan þef) og tilhneigingu til að tileinka sér stór svæði og verja þau af hörku gagnvart öðrum köttum.

Þetta þýðir að högnar þvælast mikið að heiman frá sér, oft í nokkra daga í einu, og lenda reglulega í útistöðum og slagsmálum við aðra ketti. Þetta þýðir ekki aðeins að högnar séu líklegir til að fá sár sem þeir fá í slagsmálum, heldur baka þeir líka eigendum sínum óvinsældir nágrannanna með því að ráðast á ketti þeirra.

Allir kettir, hvors kyns sem þeir eru og hvort sem þeir eru ófrjóir eða ekki, eru líklegir til að verja umráðasvæði sín, en þetta vandamál er langmest þar sem um ógelta högna er að ræða.
Breimandi kettir í þéttbýli halda oft vöku fyrir fólki og gerir katti óvinsæla hjá mörgum.
Heimiliskötturinn er bestur vanaður. Geltur köttur er líklegri til að vera heilbrigðari en ógeltur köttur.

Hvað á köttur að vera gamall þegar hann er geltur?

Hægt er að gelda ketti á hvaða aldri sem er, en yfirleitt er mælt með því að það sé gert um fimm eða sex mánaða aldur. Þá hefur kötturinn náð ákveðnum þroska en er varla orðinn nógu gamall til að sýna högnastæla.

Breytast eðliseiginleikar kattarins við geldingu?

Geltur köttur mun að sjálfsögðu ekki fá útlit og eiginleika frjós högna, en gelding ætti ekki að breyta skapgerð hans og eðliseiginleikum. Þar sem geltir högnar eru ekki eins uppteknir af því að verja svæði sín og ógeltir, hafa þeir tilhneigingu til að verða makráðir og fitna oft. Flestir högnar sem haldnir eru sem gæludýr eru reyndar geltir, og veita eigendum sínum yfirleitt mikla ánægju og félagsskap.

Getur verið hættulegt að gelda ketti?
Þar sem hvort heldur ófrjósemisaðgerð á læðum eða gelding högna krefst svæfingar getur nokkur áhætta fylgt slíkum aðgerðum. Upp geta komið vandamál sem eiga rætur að rekja til svæfingarinnar, svo sem innvortis blæðingar í kjölfar aðgerðarinnar eða sýkingar. Þó að hver sá sem lætur gæludýr sitt gangast undir aðgerð verði að vera undir það búinn að einhver áhætta geti verið því samfara, skal lögð á það áhersla að aðgerðir á ungum og heilbrigðum köttum takast í langflestum tilfellum mjög vel og vandamál í kjölfar þeirra eru afar sjaldgæf. Það má staðhæfa að meiri áhætta geti fylgt því fyrir læðu að ganga með og eignast kettlinga en áhættan sem fylgir ófrjósemisaðgerð.


Kisa er farin að pissa utan kassans?

Ef kötturinn er geltur, eru það oft mótmæli vegna einhverra breytinga í umhverfinu eða á heimilinu, sem orsakar breytingu á hegðun, oft til að fá athygli. Hægt er að fá lyktarhormón hjá dýralækni sem kallast Feliway, sem hefur róandi áhrif á köttinn og lagar oft þetta vandamál.

Stundum getur þó verið um einhvern sjúkdóm að ræða. Ræðið við dýralækninn, það er oft hægt að meðhöndla köttinn.


Offita

Oft taka eigendur ekki eftir því að kötturinn fitnar fyrr en kötturinn er orðinn akfeitur eða dýrlæknirinn bendir eigendanum á það, er kötturinn kemur í dýralæknaskoðun. Þegar þú strýkur kettinum þínum áttu að finna fyrir ribbeinunum án þess að þurfa að pressa mjög á þau. Ef þú sérð ribbeinin þá er kötturinn of grannur. Margir kettir með offitu éta kannski ekki mjög mikið, en þeir hreyfa sig líka mjög lítið.

Ýmis vandamál geta fylgt offitu hjá köttum. Þeir eiga oft erfitt með að þrífa sig almennilega og fá þá frekar húðvandamál. Feitir kettir fá frekar þvagsteina, sem valda þvagstíflu. All offeit dýr eru í lélegri líkamlegri þjálfun og extra þyngd eykur álag á hjarta og liðamót.

Besta leiðin til að forðast vandamálið er fóðrunin. Ekki gefa kettinum þínum of mikinn mat. Veldu gott fóður, sem hentar fyrir þinn kött og skammtaðu kettinum daglega. Vigtaðu köttinn annað slagið til að fylgjast með þyngdinni. Dýralæknastofurnar hafa yfirleitt góða vigt til að vigta köttinn. Ef kötturinn þarf að léttast, minkaðu fóðurskammtinn um tvo þriðju. Hægt er að fá fóður, „Slim“ til að minnka kaloríurnar í fóðrinu. Ekki megra köttinn of ört, það getur valdið lifrasjúkdómi. Megrunin ætti að vera stöðuð yfir 3-4 mánuði. Fáðu ráð hjá dýralækninum þínum, hvernig best er að megra köttinn þinn.

Eldri kettir

Villikettir eru heppnir ef þeir ná tveggja ára aldri, en algengt er að heimiliskettir lifi mun lengur. „Eðlilegt“ má teljast að heimiliskettir nái 14 ára aldri en það er ekki óalgengt að þeir geti orðið 16 – 17 ára gamlir. Það telst fremur til undantekninga en reglu ef kettir verða eldri en þetta. Þó er vitað til þess að kettir verði yfir 20 ára gamlir en hæsti aldur sem kettir geta náð er milli 20 og 30 ár.

Hver eru helstu ellimerkin sem koma fram hjá heimilisköttum

Margir kettir virðast hafa ótrúlegt viðnám gegn áhrifum ellinnar, en helstu merkin eru þau að kötturinn verður smátt og smátt makráðari, er minna á stjái og sefur langtímum saman á hlýjum stað. Sumir kettir þyngjast en flestir kettir taka að leggja af eftir því sem ellin færist yfir þá og þorsti tekur að ásækja þá svo að þeir þurfa að drekka meira en áður. Algengt er að köttum daprist sjón og heyrn með aldrinum en það þarf ekki að þýða að nauðsynlegt sé að svæfa þá. Með ofurlítilli aukaumhyggju og athygli geta slíkir kettir lært að una sér vel innan vel þekktra veggja heimilisins.

Hvernig er best að sinna gömlum ketti svo vel fari?

Gott er að fara reglulega með köttinn í eftirlit til dýralæknis svo að vandamál eða hrumleikamerki uppgötvist sem fyrst. Kemba þarf köttum gjarnan oftar og betur þegar aldurinn færist yfir þá vegna þess að þeim gengur verr að losa sig við hárin sem þeir gleypa er þeir þvo sér. Ekki er óalgengt að klærnar vaxi um of, jafnvel svo mjög að þær taki að bogna inn á við og vaxa inn í þófana.

Ef nauðsyn krefur skal klippa þær reglulega, og einkum skal þó gæta þess að gera það í fyrsta sinn vel áður en ástandið er orðið svo slæmt. Kötturinn þarf að eiga hlýtt bæli þar sem ekki er dragsúgur og ekki er gott að láta hann vera úti lengi í einu þegar kalt er í veðri. Eldri kettir þurfa oft að drekka meira en þeir gerðu á yngri árum, og því er nauðsynlegt að þeir hafi alltaf aðgang að nægu fersku vatni.

Þurfa kettir á sérstöku mataræði að halda þegar þeir eldast?
Margir kettir eru matvandir og óttalegir gikkir á öllum aldursskeiðum, en ekki er úr vegi að ætla að með aldrinum verði þeir enn vandlátari varðandi það sem þeir láta inn fyrir sínar varir. Gæta ber þess að gefa öldruðum köttum aðeins mat úr góðu hráefni, sem og auðmeltanleg eggjahvítuefni svo sem fiskmeti, kanínukjöt, kjúklinga og soðin egg, ásamt réttu magni af steinefnum.

Ef kötturinn tekur að leggja af ætti að reyna að gefa honum feitmeti ásamt kjöti. Margir kettir fúlsa við því, en gott er að reyna að láta þá éta hrísgrjón eða pasta með smjöri, brauð með smjöri, kartöfluflögur og kartöflur. Aldraðir kettir vilja oft éta minna í einu en oftar, og best er að gefa þeim þegar þeir eru svangir fremur en á fyrirfram ákveðnum matmálstímum. Nokkrir ákveðnir sjúkdómar herja á gamla ketti og eigendur þeirra ættu að vera á varðbergi gagnvart fyrstu einkennum þeirra. Það er viturlegt að leita ráðlegginga hjá dýralækni um leið og vart verður við einhver vandamál – lyf sem fást í gæludýrabúðum eða eru heimatilbúin geta verið skaðleg og orðið til þess að vandamálið eða sjúkdómurinn ágerist og nái að festa sig í sessi áður en árangursrík meðhöndlun er hafin.

Þyngdartap og aukinn þorsti.

Mjög algengt er að gamlir kettir leggi af smátt og smátt og drekki meira en áður. Þetta getur verið eðlilegt og þáttur í öldrunarferlinu, en einnig getur þetta verið af völdum einhvers sjúkdóms og þá þarfnast kötturinn meðhöndlunar dýralæknis. Gott er að fara með ketti í reglulegt eftirlit hjá dýralækni á sex til níu mánaða fresti en ef köttur tekur skyndilega að drekka meira en áður eða horast niður ætti að fara umsvifalaust með hann í læknisskoðun. Gott er að vigta aldraða ketti á tveggja til þriggja mánaða fresti og skrá þyngd þeirra svo að hægt sé að fylgjast með því hvort þeir léttist eða þyngist – það getur verið erfitt að sjá slíkt á þeim.

Harðlífi: – Ekki er óalgengt að slakni á þarmastarfsemi hjá öldruðum köttum og það veldur því að þeir fá harðlífi öðru hvoru. Sumir kattaeigendur verða mjög áhyggjufullir ef kettir þeirra skíta ekki daglega, en ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af slíku nema ef kötturinn rembist mjög án árangurs eða hefur ekki skitið í nokkra daga.

Gæta skal þess að rugla ekki saman rembingi sem á rætur að rekja til harðlífis og rembingi sem orsakast af þvagfærastíflu – hið síðarnefnda er alvarlegur sjúkdómur sem krefst umsvifalausra aðgerða dýralæknis. Þjáist köttur af harðlífi skal gefa honum eina teskeið af parafínolíu á dag í nokkra daga – ef köttur hefur ekki skitið í sólarhring eða sýnir merki um óþægindi er best að hafa samband við dýralæknir. Parafínolíugjöf í miklum mæli getur minnkað upptöku vítamína í líkama kattarins og því skyldi gefa honum aukaskammt af vítamínum til mótvægis.

Áramót

Á gamlársdag, gamlárskvöld, nýarsdagskvöld og þrettándann er æskilegt að halda köttum inni við. Gott er að útbúa fyrir þá aðstöðu, skjól í einhverju rými sem þeir þekkja og finna til öryggistilfinningar. Kettir sækja gjarnan í dimm skot, til dæmis undir rúmi, inni í skáp eða þessháttar stöðum.

Það er mikilvægt að passa að kötturinn sé inni allann daginn á gamlársdag, þar sem margir virðast byrja að sprengja strax eftir morgunmatinn.  Gott er að draga fyrir glugga í herberginu þar sem kötturinn er og hafa opið fyrir útvarp þannig að hvellir og ljósagangur að utan hafi minni áhrif.

Ekki er ráðlegt að gefa köttum róandi lyf um áramót, nema í undantekningartilfellum.  Til að fá róandi lyf fyrir köttinn þarf að leita tímanlega til dýralæknis.

Spurt og svarað

Almennt

Mig langar svo að vita hvort það sé í lagi að baða persa 1 sinni í mánuði. Einnig hvort maður eigi að gefa þeim bara þurrfóður? (frekar einhæft) Auk þess svo ég svali minni spurningaþörf hvað ég eigi að gera vegna þess hve mikið vessar úr augunum á öðrum kisanum mínum (persneskur). Ég er alltaf að plokka drullu frá augunum en auk þess harðnar þessi vökvi undir augnlokunum – hvað á ég eiginlega að gera? Ég er búin að prufa sérstaka dropa.
Það er allt í lagi að baða persa 1 sinni í mánuði. Aðalatriðið er að þurrka hann vel á eftir og jafnvel blása á honum feldinn og kemba vel og vandlega svo það komi ekki flókar. Mikilvægt er að nota vörur sem eru sérstaklega ætlaðar fyrir ketti. Það er mjög gott að venja ketti á að borða vandað þurrfóður, það er bæði praktískt heima við, það slípar tennurnar og minnkar hættu á tannsteini fyrir utan að það er sérstaklega hannað fyrir dýr. Það er samt sem áður í lagi að gefa dósamat eða kjúkling öðru hvoru, svona til hátíðarbrigða. Þú er ekki ein á báti með að eiga í erfiðleikum með augun á persum. Þau eru mjög viðkvæm og hjá mörgum köttum getur þetta verið lífstíðarvandamál. Ef þetta er óvenjuslæmt um þessar mundir skaltu fara með köttinn til dýralæknis sem getur athugað hvort um sýkingu er að ræða!

Góðan dag! Mig langaði að vita hvort það sé eitthvað hægt að gera í augnleka í persneskum ketti. Það vill oft leka úr augum persa.
Hægt er að fá augnhreinsi hjá dýralæknum til að skola augum sem getur hjálpað. Ef um sýkingu er að ræða þarf oft fúkkalyf til að laga það.

Ég var að spá hvort þú gætir hjálpað mér með kisurnar mínar. Málið er að ég er með 2 persa rúmlega 3ja.mánaða og 5 mánaða og það lekur svo úr augunum á þessum yngri svo mikil drulla og ógeð. Ég er búin að prufa að setja dropa en þetta er samt frekar mikið. Er í lagi að kroppa þetta bara af með puttunum eða hvað á ég að gera?
Það vill oft leka úr augum persakatta, gott er að hreinsa augum með augnhreinsi, sem þú færð hjá dýralækni. Ef sýking er í auga þarf oft fúkkalyfsgjöf.

Ég er með 1/2 persa kött, högna sem er rúmlega eins árs gamall. Mér finnst hann drekka svo lítið, miðað við aðra ketti sem ég hef átt í gegnum tíðina.. Hann lítur ekki við matardallinum ef eingöngu er sett mjólk eða vatn í hann. Hann fer að vísu svolítið út og hlýtur að ná sér í eitthvað þar. Hins vegar hefur hann góða matarlyst og borðar hvað sem er.Er þessi tegund eitthvað öðruvísi en hinn venjulegi köttur.. Mér finnst hann líka sofa mikið meira og mikið fastar en aðrir kettir sem ég hef átt. En hann er kátur og blíður þegar hann er vakandi. Síðan er líka vandamál með feldinn á honum, hann flækist allur ef maður burstar hann ekki upp á hvern dag. Sérstaklega undir framfótum og við eyrun. er eitthvað ráð til að minnka flókann.
Þetta hljómar sem ósköp góður persi, hann líklega drekkur úti eða ef þú gefur blautt fóður þarf hann minna vatn. Það þarf að greiða eða bursta persaketti oft og gott að baða þá annað slagið með kattasjampó og setja svo hárnæringu á eftir til að þeir fari síður í flóka.

Ég er með 8 mánaða gamlan persahögna og ég var að velta því fyrir mér hvortætti að klippa hann og/eða hvort þú gætir bent mér á einhverjar upplýsingar um klippingu og umhirðu feldsins? Sumir tala um að þeir plokki hárin við nasirnar á þeim eða einhvernveginn í kringum nefið!? Annað er það sem mig langar til að fá svar við; það er hvort persar megi fara út eins og aðrir kettir? 
Persar mega fara út.. Til að persar fari ekki í flóka er gott að baða þá annað slagið nota kattasjampó og kattahárnæringu, geiða þeim vel með næringunni og skola svo vel úr. Greiða þeim daglega eða bursta. Ef feldurinn fer í flóka getur þurft að klippa þá og þarf þá að raka þá alveg, sem er best gert hjá dýralækni, þar sem oft þarf að róa þá á meðan.


Fóðrun

Hvað er algengast að kettir borða mikið. Er rétt að gefa þeim einungis þurrfæði og vatn? Afhverju?
Ástæðan fyrir því að gefa einkum þurrmat er sú að þurrmaturinn slípar tennurnar og köttum er ekki eins hætt við tannsteini eins og ef þeir eru á blautmat. Þeir þola mjólkurvörur mjög misvel og því er nú vatnið skynsamlegasti kosturinn.

Ég á litla læðu sem alltaf er til í að fá sér að éta. Að öllu jöfnu gef ég henni venjulegan kattamat (þurran) en þegar ég er í góðu skapi gauka ég að henni kæfubitum, rækjum, lifrarpylsu og rúsínum en þessu sporðrennir hún með bestu lyst. Ég geri þetta vitaskuld í litlu magni og ekki mjög oft og því spyr ég, er nokkuð að þessu?
Þetta er allt í lagi á meðan ekki er í of miklu magni í einu og læðan fitnar ekki of.

Dagfinnur dýralæknir. Ég var að fá mér persneska kettlinga og var ráðlagt að gefa þeim bara þurrfóður. Ég keypti mjög gott fóður í gæludýraverslun sem þeir eru hrifnir af en má ekki gefa þeim smá dósamat, kannski 1-2 í viku… svona til tilbreytingar fyrir þá?
Það er í stakasta lagi að gefa kettlingnum dósamat svona öðru hvoru meðan aðaluppistaðan er þurrmatur. Vertu bara alveg viss á því að þurrmaturinn sem þú ert að kaupa sé ætlaður kettlingum. Spurningin er svo náttúrulega hvernig kettlingaaldurinn er skilgreindur,- miðaðu við 8-11 mánaða!

Við kærastinn vorum að fá okkur kettling.Bæði höfum við átt ketti áður.Með þennan rekumst við hins vegar á það vandamál að óhugnalega slæm lykt er af kúknum.Húsið verður hreinlega undirlagt af þessari fýlu.Svona var þetta ekki í byrjun.Við notum annað þurrfóður núna en áður (bleytt) sem hún snertir reyndar varla á og eins annan dósamat.Hún er vitlaus í hann svo við höfum minnkað matargjöfina niður í 2svar á dag svo hún borði hitt fóðrið líka.Getur verið að það sé ákveðin tegund af fóðri sem er svona lyktarvaldandi? Gæti það skipt máli að prófa aðra tegund? 
Fóðrið getur haft mikið að segja, best að nota gott fóður sem fæst hjá dýralæknum og í gæludýraverslunum, þó getur þurft að finna rétta fóðrið fyrir þennan kött. Líka getur verið um magavandamál að ræða og er best að láta dýralækni líta á kisu.

Ég á 5 mánaða kettling hvað er best að gefa henni að borða á maður eingöngu að gefa henni þurrmat, fisk, eða þetta Wiskas á maður að halda sig við eina fæðutegund eða hvað ég er búin að prófa ýmislegt og helst vill hún hátt kjöt og hráann fisk er það óhætt? 
Ef þú gefur henni matarafganga, kjöt eða fisk þá skaltu hafa það soðið og helst gefa hrisgrjón og grænmeti með aðeins. Þurrmat ætturðu að nota svokallaðan gæðamat, sem þú færð hjá dýralæknum eða gæludýrabúðum, mat sem hentar þessarri kisu, þarf oft að þreifa sig aðeins áfram með það.

Af hverju sjúga sumir kettlingar ull? Er það hættulegt?
Rétt eins og ungbörn þykir kettlingum gott að sjúga, jafnvel eftir að búið er að venja þá frá móður sinni. Sumir kettlingar taka upp á því að sjúga ýmiss konar efni, einkum ull. Þetta ætti helst ekki leyfa þar sem kettlingurinn gleypir þræði úr ullinni sem geta valdið harðlífi eða þarmastíflum. Best er að fjarlægja efnið sem kettlingurinn vill sjúga ef það er hægt.

Því hefur verið slegið fram að kettlingar sjúgi fremur ull þegar þeir eru svangir eða ef þeir fá ekki nóg af *fíberefnum í mat sínum. Reynandi er að gera tilraunir með breytingar á mataræði og athuga hvort það kemur að gagni – stundum er gott að gefa þurrmat með öðrum mat til að bæta úr þessu. Hægt er að gefa aukaskamt af *fíberefnum, svo sem *hveitiklíð, blandað í matarskammtinn.


Hárlos

Er óhjákvæmilegt að kettir hafi hárlos? Getur ofnæmi fyrir kattahárum horfið eða minnkað,og gæti verið nóg að taka ofnæmistöflur?
Kettir hafa alltaf eitthvað hárlos, en hægt er að minnka það mikið með vítamínsprautum, gefa vítamín og réttu fóðri fyrir köttinn. Ofnæmi hjá fólki er líklega ekki hægt að losna við auðveldlega, en hægt að halda því niðri með ofnæmistöflum.

Hvað geta kettir orðið gamlir og hvað á maður að gera til að losna við hárlos af þeim? 
Mörg dæmi eru um að kettir geti orðið 20 ára og jafnvel enn eldri en það eru þó frekar undantekningar heldur en reglan. Algengast er sennilega að kettir nái 16- 19 ára aldri. Þegar kötturinn er farinn að eldast (10-12 ára) er gott að fjölga heimsóknum til dýralæknis og fara yfir með honum hvernig fæði hentar kettinum best, athuga með vítamín og fleira þess háttar. Einnig getur verið gott að láta taka blóðprufur og athuga í hvernig ástandi t.d nýru og lifur eru. Hvað varðar hárlosið gildir það sama, breytt fæði og vítamíngjafir geta gert kraftaverk.

Ég á persneska 5 ára gamla læðu sem er búin að vera með flösu í tvö ár. Hún er kemd reglulega og er á mjög góðu þurrfóðri. Ég er ráðþrota og væri mjög fegin að fá einhverjar útskýrirngar á þessu?
Hægt er að fá flösusjampoo sem gæti hjálpað hjá dýralæknum eða gæludýraverslunum. Gott gæti verið að láta dýralækni líta á hana.